Samrómur - hvaða grunnskóli sigrar?

samromur.is
samromur.is

Brot úr pósti frá Radd- og máltæknistofu Háskólans í Reykjavík og Almannarómi:

Íslenska er einstakt tungumál sem hefur varðveist betur en flest önnur mál undanfarin þúsund ár. Vegna örra tæknibreytinga á hún þó undir högg að sækja en mörg okkar eiga nú þegar samskipti við tölvur og ýmis tæki á erlendu máli. Ef við kennum tölvum að tala og skilja íslensku aukum við líkurnar á að tungumálið okkar lifi áfram og eflist í stað þess að láta undan síga og að lokum gleymast. Til þess að svara þessari ógn af fullum krafti var vefurinn samrómur.is settur í loftið síðasta haust við hátíðlega athöfn í Veröld, húsi Vigdísar. Þjóðin var þar beðin um að fara á vefinn og lesa inn setningar á íslensku.
 
Til að byrja með snerist átakið um söfnun raddsýna frá fullorðnum einstaklingum. Tilvera íslenskrar tungu stendur hins vegar og fellur með því að börn og unglingar noti tungumálið. Það þarf að tryggja að tæknin skilji raddir barna og unglinga, sem nú tala við flest sín tæki á ensku, en raddir barna og unglinga eru afar frábrugðnar röddum fullorðinna.
 
Því hefur verið sett af stað lestrarkeppni grunnskóla þar sem keppt er um fjölda setninga sem nemendur lesa inn á síðunni samrómur.is. Til þess að taka þátt fara nemendurnir á vefinn, biðja um leyfi foreldris/forráðamanns, velja sinn skóla og lesa svo inn setningar sem vefurinn birtir. Staða keppninnar er síðan birt jafnóðum á stigatöflu sem er aðgengileg inni á síðunni. Foreldrar og starfsmenn eru ekki síður hvattir til þess að lesa inn fyrir skólana.
 
Þetta getur nýst börnum sem góð æfing í lestri, sér í lagi þar sem hægt er að hlusta á sína eigin upptöku og meta hvort hún hafi verið rétt lesin. Við hvetjum því grunnskóla landsins til að taka þátt í verkefninu. Samstarf skóla, heimila og barna, ásamt svolitlu keppnisskapi, getur tryggt að íslenskan verði gjaldgeng í tölvum og tækjum. Þannig tryggjum við að tungumálið lifi.   Guðni Th. Jóhannesson forseti mun veita sigurskólunum viðurkenningar.

Keppnin stendur til 10. maí. Keppt verður annars vegar á milli skóla sem eru með fleiri en 450 nemendur og hins vegar á milli skóla sem eru með færri en 450 nemendur.