Skólahjúkrun

Heilsuvernd skólabarna í Grunnskólanum á Þórshöfn er á vegum Heilsugæslunnar á Þórshöfn.  

Viðverutími skólahjúkrunarfræðings er á miðvikudögum kl 08:30-12:00 

Netfang skólahjúkrunarfræðings er: grunnskolinnathorshofn@hsn.is 

 

Heilsuvernd skólabarna  

Heilsuvernd skólabarna er hluti af heilsugæslunni og framhald af ung- og smábarnavernd. Markmiðið er að efla heilbrigði nemenda og stuðla að vellíðan þeirra.  

Starfsfólk heilsuverndar skólabarna vinnur í náinni samvinnu við forsjáraðila, skólastjórnendur, kennara og aðra sem koma að málefnum nemenda með velferð þeirra að leiðarljósi. Farið er með allar upplýsingar sem trúnaðarmál.  

Þjónusta heilsuverndar skólabarna er skráð í rafræna sjúkraskrá heilsugæslunnar. Helstu áherslur í heilsuvernd skólabarna eru forvarnir, heilbrigðisfræðsla, skimanir og bólusetningar.  

Unnið er samkvæmt leiðbeiningum Þróunarmiðstöðvar íslenskrar heilsugæslu um heilsuvernd grunnskólabarna. Frekari upplýsingar um heilsuvernd skólabarna má finna á heilsuvera.is undir leitarorði „heilsuvernd grunnskólabarna“  

Hagnýtar upplýsingar  

Veikindi og slys  

Ef óhapp eða slys verður á skólatíma sér starfsfólk skólans um fyrstu hjálp. Þurfi nemandi að fara á heilsugæsluna eða slysadeild skulu forsjáraðilar fara með barninu. Því er mikilvægt að skólinn hafi öll símanúmer þar sem hægt er að ná í þá á skólatíma barnsins. Ekki er ætlast til að óhöppum sem gerast utan skólatíma sé sinnt af heilsuvernd skólabarna.  

Langveik börn  

Mikilvægt er að skólahjúkrunarfræðingur viti af börnum sem eru með fötlun eða langvinnan og/eða alvarlegan sjúkdóm, s.s. sykursýki, ofnæmi, flogaveiki, blæðingarsjúkdóma eða aðra alvarlega sjúkdóma. Hlutverk skólahjúkrunarfræðingsins er að skapa þessum börnum viðeigandi aðstæður og umönnun í skólanum í samvinnu við foreldra/forsjáraðila og starfsfólk skólans.  

Lyfjagjafir  

Samkvæmt tilmælum landlæknis (https://throunarmidstod.is/library/Files/Heilsuvernd-skolabarna/Tilm%c3%a6li%20landl%c3%a6knis%20um%20lyfjagjafir%20%c3%ad%20sk%c3%b3la_uppf%c3%a6rt23.pdf ) um lyfjagjafir í grunnskólum eru sérstakar vinnureglur varðandi lyfjagjafir til nemenda á skólatíma. Mikilvægt er að forsjáraðilar barna sem þurfa að taka lyf á skólatíma hafi samband við skólahjúkrunarfræðing.