Minning um Sóleyju Vífilsdóttur

Minningargreinin birtist í Morgunblaðinu 25. nóvember 2023
 
Stórt skarð hefur verið höggvið í hóp okkar starfsfólksins í Grunnskólanum á Þórshöfn við fráfall elsku Sóleyjar.
 
Upp í hugann kemur þakklæti fyrir að hafa átt samleið með henni, hún var fagmanneskja fram í fingurgóma sem auðgaði starfsmannahópinn með þekkingu sinni, kímnigáfu og hjálpsemi. Hún var lausnamiðuð og dugleg að sækja sér þekkingu og tileinka sér nýjungar sem hún miðlaði áfram til okkar.
 
Litla vinnuherbergið hennar í skólanum var hlýlegt eins og hún sjálf og þangað voru allir velkomnir til skrafs og ráðagerða, hún átti alltaf einhver ráð í pokahorninu þegar eftir var leitað. Inni hjá henni leið nemendum vel og þeir fundu þar öryggi og ró.
 
Henni var margt til lista lagt en hún var hógvær og miklaðist aldrei af verkum sínum. Í góðra vina hópi var hún hrókur alls fagnaðar, á starfsmannasamkomum lumaði hún ósjaldan á skemmtilegum leikjum og húmor hennar smitaði út frá sér.
 
Fólk verður fyrst gamalt þegar það hættir að leika sér, var hennar mat og hún trúði á mikilvægi þess að læra í gegnum leik og nýtti það vel með nemendum okkar í skólanum.
 
Við erum harmi slegin, það er svo óraunverulegt að vita að þú eigir ekki eftir að koma inn í kaffistofuna aftur og svara okkur á þennan veg: „Piff, þetta er ekkert…“
 
Elsku Sigurjón Vikar, Hrefna Maren, Hrefna, Vífill, Marinó, Vikar og fjölskyldur, missir ykkar er mikill og við sendum okkar dýpstu samúðarkveðjur.
 
Starfsfólk Grunnskólans á Þórshöfn.